
Eins og komið hefur fram í fréttum, þá hefur notkun á Ozempic margfaldast á stuttum tíma. Mikill skortur hefur verið á lyfinu til lengri tíma og fjöldi dæma eru um að apótek hafi neyðst til að skammta lyfinu til viðskiptavina í einn mánuð í senn. „Þetta hefur valdið notendum lyfsins verulegum vandræðum og fólk hringir örvæntingafullt í fjölda apóteka og er að leita að skammti“ segir Hákon Steinsson, framkvæmdastjóri Lyfjavers.
Lyfjaver hefur haft markaðsleyfi fyrir Ozempic í yfir 2 ár en markaðsaðstæður hafa ekki þótt hagstæðar til innflutnings. Tækifæri opnaðist nú með stærri pakkningum af lyfinu sem innihalda 3 áfyllta lyfjapenna, sem er þriggja mánaða skammtur af lyfinu. „Til að koma til móts við birgðaskortinn og vonumst við til að geta lagt hönd á plóg við að bæta aðgengi að lyfinu en þessar stærri pakkningar eru nú fáanlegar í fjölda apóteka“, segir Hákon.
Lyfjaskortur verulegt vandamál
Hákon segir að Lyfjaskortur hefur verið verulegt vandamál undanfarin ár og það sé mikil áskorun að tryggja nægar birgðir af lyfjum til að gæta þess að sjúklingar verði ekki lyfjalausir. „Við leggjum gríðarlega vinnu í að tryggja það að einstaklingar í lyfjaskömmtun hjá okkur fái þau lyf sem þau hafa í skömmtun. Okkur hefur tekist vel til og má segja að einstaklingar í skömmtun séu undir ákveðnum verndarskildi gagnvart þessu vandamáli, en það þarf stöðugt að vakta biðlista lyfjaheildsala, auka birgðir lyfja sem verða reglulega ófáanleg, birgja okkur upp af öðrum samheitalyfjum eða þá flytja lyfin sjálf inn“ segir Hákon.
Samhliða því að reka eitt stærsta apótek landsins og sinna vélskömmtun á lyfjum, þá rekur Lyfjaver einnig lyfjaheildsölu sem hefur farið vaxandi síðustu ár og stefnir innflutningur þetta árið í yfir 1 milljarð kr.

Við munum svara beiðni þinni eins fljótt og kostur er
Get ég aðstoðað?
